Mikilvægt er að fyrirtæki, sem nú eru tímabundið í ríkiseigu, komist sem fyrst í eigu einkaaðila, helst í gegnum heilbrigðan hlutabréfamarkað, þannig að hann mætti efla á ný, og með aðkomu erlendra aðila, bæði kröfuhafa og nýrra fjárfesta.

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fyrr í dag.

Jóhanna sagði að með því yrði hér byggt upp heilbrigt efnahagsumhverfi og traust eflt á fjármálakerfið innan lands og í alþjóðlega umhverfinu.

„Ríkið á einfaldlega ekki að reka fyrirtæki í samkeppnisrekstri, ríkið á að einbeita sér að því að tryggja öryggisnet velferðar, menntunar og annarrar sameiginlegrar uppbyggingar svo sem samgangna,“ sagði Jóhanna.

„Ríkið á jafnframt að tryggja traustan lagaramma í kringum efnahagslífið sem tryggir gagnsæja samkeppnisstöðu fyrirtækja og að almannahagsmunir séu ávallt hafðir í fyrirrúmi en ekki sérhagsmunir.“

Jóhanna sagðist vilja vinna með atvinnulífinu og aðilum vinnumarkaðarins að þjóðarsátt um breytingar á ýmsum sviðum samfélagsins, hjá hinu opinbera og hjá atvinnulífinu. Hún sagði grunn að því þegar hafa verið lagðan, sem henni litist vel á.

„Verði ég í forystu fyrir nýrri ríkisstjórn verður það eitt af mínum fyrstu verkum að sameina hagsmunaaðila um slíka stefnumótun,“ sagði Jóhanna.

„Við hljótum á þessum erfiðu tímum að setja til hliðar ofurlaun og óeðlileg kaupaukakerfi. Ég tel að öll fyrirtæki sem skila hagnaði um þessar mundir hljóti að horfa til þess að verja hagnaði sínum til frekari verðmætaaukningar á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra og fjölgunar starfa frekar en að greiða út arð og stuðla þannig að uppbyggingu til framtíðar í þessum fyrirtækjum. Aðeins á þeim forsendum er hægt að ætlast til þess að launþegar sætti sig tímabundið við lakari kjör og kostnaðarsamra aðgerða ríkisvaldsins í formi skattalækkana sem þegar hefur verið gripið til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja.“

Ræðu Jóhönnu má lesa í heild sinni hér.