Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gengur samkvæmt áætlun, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. Hún sagði að stjórnvöld myndu sjá til þess að samstarfið við sjóðinn yrði skilvirkt og traust.

Jóhanna kom víða við í ræðu sinni. Hún sagði m.a. að eitt af mikilvægustu forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar væri að tryggja að fjármálastofnanir öðluðust þann styrk sem þyrfti til að geta stutt vel við uppbyggingu atvinnulífsins.

Þá sagði hún að lögð yrði áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að markvisst og hratt yrði unnið að því að ljúka mati á eignum gömlu og nýju bankanna. „Það hefur gengið hægar en reiknað var með í upphafi. Þegar því verki er lokið verður hægt að ljúka við endurfjármögnun bankanna."

Vextir verði lækkaðir sem fyrst

Kappkosta yrði að koma hjólum atvinnulífsins af stað sem fyrst. Fyrirtækin glímdu við örðugri aðstæður en nokkur dæmi væru til um; gríðarlega skuldsetningu, samdrátt í eftirspurn og tekjum, ótryggan gjaldmiðil og hátt vaxtastig.

„Við þessar aðstæður þurfa bankarnir vitanlega að gæta varúðar. Þeir þurfa um leið að axla þá ábyrgð að veita fyrirtækjunum aðhald og taka þátt í endurreisnarstarfinu. Með hratt lækkandi verðbólgu sem virðist blasa við skapast forsendur fyrir lækkun stýrivaxta og hagfelldara umhverfi fyrir atvinnulífið. Í gjaldeyris- og peningamálum þarf að skapa skilyrði fyrir því að hægt verði að draga úr gjaldeyrishöftum og lækka vexti sem fyrst."

Jóhanna sagði að undir lok ræðu sinnar að vonandi yrði arfleifð þessarar ríkisstjórnar sú að hún yrði talin hafa verið undanfari nýrra tíma í íslensku samfélagi, þar sem lýðræði og áhrif einstaklinga á umhverfi sitt fengi innihald.

„Þetta er og á að verða ríkisstjórn fólksins í landinu," sagði hún að síðustu.