Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla hafi lítinn tilgang þegar þjóðin viti ekki hvað í boði er með aðild að Evrópusambandinu.

„Í þessu máli verðum við að hafa skýra framtíðarsýn. Það mun reynast dýrt fyrir íslenska þjóð að láta stjórnast af ákvörðunarfælni eins og Sjálfstæðisflokkurinn virðist gera í þessu máli eins og svo mörgum öðrum," sagði hún í lokaræðu á landsfundi Samfylkingarinnar í dag.

„Við viljum sambærileg kjör fyrir íslenskan almenning og þar sem best gerist í Evrópu. Besta leiðin að þessu markmiði er að leita samninga við Evrópusambandið um fulla aðild og upptöku evru, eins fljótt og kostur er."

Jóhanna sagði að reynsla íslenskrar þjóðar af því að viðhalda sjálfstæðum gjaldmiðli væri ekki góð. „Atvinnulífið hefur að stórum hluta verið á ólgusjó ótryggs gjaldmiðils eins og þorri almennings. Launafólkið hefur mátt þola það árum saman að tekjur þess hafi verið óvissar – og engin trygging fyrir því að þær héldu í við fjárhagslegar skuldbindingar heimilanna," sagði hún.

Aðild að ESB auðveldar afnám verðtryggingar

„Aðild ad Evrópusambandinu auðveldar afnám verðtryggingar, sem m.a. vegna ótryggs gjaldsmiðils hefur verið víðtækari og meiri hér á landi en annars staðar. Það er óþolandi annað en íslenskt launafólk og atvinnulíf búi í þessu efni sem öðrum við hliðstæð kjör og hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar," sagði Jóhanna enn fremur.

Hún sagði að allt þetta undirstrikaði mikilvægi þess að evran yrði framtíðargjaldmiðill okkar.

„Það breytir þó engu um nauðsyn þess að við komum á stöðugleika og styrkjum krónuna, það er helsta verkefni okkar á næstu misserum, til viðreisnar efnahagslífinu á Íslandi. En um leið þurfum við að gefa umheiminum til kynna á hvaða leið   við Íslendingar erum sem þjóð. Það eitt og sér mun hjálpa okkur mjög við endurreisn okkar efnahags- og atvinnulífs."