„Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki áttað sig á alvöru málsins og greitt atkvæði gegn þessari lagasetningu,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins reyndi að fella frumvarp um herðingu gjaldeyrishafta í mars síðastliðnum. Frumvarpinu var ætlað að koma í veg fyrir að útgreiðsla úr þrotabúum Glitnis og Kaupþings til kröfuhafa gætu grafið undan áætlun um losun hafta, valdið alvarlegum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, skilað sér í gengislækkun krónunnar og höggvið stór skörð í gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Jóhanna skrifar kjallaragrein í DV í dag þar sem hún fer yfir málið. Hún segir ástæðuna ráðgátu enda bent á alvarleika málsins í greinargerð með frumvarpinu.

Fagnar áhuganum

Hún segir málið ekki síst undarlegt fyrir þær sakir að á sama tíma hafi sjálfstæðismenn gert mikið úr hugsanlegri vá vegna nauðasamninganna og formaðurinn, Bjarni Benediktsson, sagt í fréttum í síðustu viku þingið verði að hafa síðasta orðið.

Í greininni fagnar hún áhuga þingflokks Sjálfstæðisflokksins á leiðum til þess að verja krónuna og þar með kjör landsmanna gegn mögulegu útflæði eigna erlendra kröfuhafa. „Sinnaskipti þeirra eru jákvæð og og vitanlega mikilsvert að geta ráðið bót á þeim langvinna sjúkdómi eftirhrunsáranna sem hengjan svokallaða og gjaldeyrishöftin eru.

Hún segir enn margt óleyst, jafnvel þurfi að breyta áætlun um afnám hafta.

„Við þurfum til dæmis að fara yfir það hvort enn sé þörf lagabreytinga vegna gjaldeyrishaftanna og hvort breyta þurfi áætlun um afnám þeirra [...] Ég sé hins vegar ekkert að því að Seðlabankinn hafi það sérstaka hlutverk áfram að gæta hagsmuna þjóðarinnar í þessum efnum með þeim valdheimildum sem löggjafarþingið hefur fært honum í glímunni við það sérstæða og mikilvæga verkefni að verjast frekari gengis- og gjaldeyrisáföllum sem gætu sett heimilin og rekstur fyrirtækja í alvarlegt uppnám.“