Jörðin Fell við Jökulsárlón verður sett í söluferli á almennum markaði, nema Héraðsdómur hnekki þeim úrskurði. Þetta staðfestir Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaðurinn á Suðurlandi, í samtali við Viðskiptablaðið. Hún segir að ef einhver vilji beina úrskurðinum til Héraðsdóms þurfi það, samkvæmt lögum, að gerast án tafar.

Í morgun fór fram byrjun uppboðs á jörðinni, en þar var sú ákvörðun tekin að setja jörðina í sölu á almennum markaði frekar en að bjóða hana upp. Anna segir að þetta hafi verið gert að beiðni uppboðsþola, eigenda jarðarinnar. Embætti sýslumannsins hafi tekið ákvörðun um að verða við því og þurfi ekki að rökstyðja þá ákvörðun frekar. Anna segist ekki vita hvenær jörðin muni fara á sölu, ef af því verður.

Vilja að stjórnvöld grípi inn í málið

Ásmundur Einar Daðason og Haraldur Einarsson, þingmenn Framsóknarflokksins, sendu formönnum og varaformönnum fjárlaganefndar og umhverfisnefndar Alþingis bréf í morgun þar sem þeir óska eftir sameiginlegum fundi um málefni Jökulsárlóns. Það er mat þeirra að stjórnvöld verði að leita allra leiða til að grípa inn í uppboðsferlið og að mikilvægt sé að það sé tekið upp á vettvangi Alþingis.