„Það þarf ekki mikið til svo mér finnist jól furðuleg. Ég vil hafa þau mjög hefðbundin með mínu fólki, sama mat og sömu hefðum. Þess vegna verða öll jól sem ekki eru á þann veg frekar furðuleg. Vegna þessa hef ég ekki haldið jólin á tunglinu, allsber eða á vitlausum degi,“ segir Kristín Tómasdóttir.

Hún segir jólin yfirleitt hafa verið haldin hátíðleg heima hjá foreldrum hennar, með allri fjölskyldunni. „Rjúpur á borðum og jólaguðspjallið lesið með óþolinmóðum hlustendum. Ég held að ég verði að segja að furðulegustu jól sem ég hef haldið hafi því verið í sólarlandaferð í Dóminíska lýðveldinu. Mér fannst það góð hugmynd fyrirfram enda yfirleitt alltaf til í 10 daga sólbað, góðan kokteil og nýtt umhverfi,“ segir Kristín en viðurkennir að þessi jól í hitabeltinu hafi ekki verið neitt spes.

„Ég saknaði fjölskyldunnar minnar, veðrið var of gott og mér fannst eins og jólin hafi bara ekki komið þetta árið. Ég er ekki á leiðinni til sólarlanda yfir jól í bráð.“

Rætt er frekar við Kristínu í Jólagjafahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .