Alþingi samþykkti nýverið lög um tekjuöflun ríkisins sem fela í sér margvíslegar breytingar á gildandi lögum um tekjuskatt.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, sem send var út á Þorláksmessu,  kemur fram að meðal þeirra breytinga er að á árinu 2010 verður í fyrsta sinn innheimt þrepaskipt staðgreiðsla á tekjuskatti í þremur þrepum.

Með nýjum lögum verður tekjuskattur lagður á í þremur þrepum. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2,4 m.kr. árstekjum einstaklings (þús.e. 200 þús.kr. á mánuði) er reiknaður 24,1% skattur. Af næstu 5,4 m.kr. (450 þús.kr. á mánuði) er reiknaður 27% skattur og síðan í þriðja þrepi 33% skattur af árstekjum umfram 7,8 m.kr. (650 þús.kr. á mánuði) hjá einstaklingi.

Þá verður meðalútsvar á árinu 2010 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 13,12% í stað 13,1% á árinu 2009. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2010 verður samkvæmt því þríþætt eftir fjárhæð tekna, þús.e. 37,22% á tekjur sem nema 200 þús.kr. og lægri á mánuði, 40,12% á tekjur yfir 200 og allt að 650 þús.kr. á mánuði og síðan 46,12% á tekjur umfram 650 þús.kr. á mánuði hjá hverjum einstaklingi.

Sjö sveitafélög hækka útsvar um áramót, ekkert lækkar

Sveitarfélögin geta, samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,28%.

Í tilkynningunni kemur fram að af 77 sveitarfélögum leggja 61 á hámarksútsvar, þar af nýtir eitt þeirra sérstakt 10% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 14,61% og annað sérstakt 5% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 13,94%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Ekkert sveitarfélag lækkar útsvarshlutfallið frá því sem var á árinu 2009 en sjö sveitarfélög hækka það.

Persónuafsláttur fylgir ekki vísitölu neysluverðs

Samkvæmt nýsamþykktum lögum verður persónuafsláttur hvers einstaklings 530.466 krónur fyrir árið í heild, eða 44.205 krónur að meðaltali á mánuði í stað 42.205 króna á þessu ári. Hækkunin milli ára er 2.000 krónum á mánuði eða 24.000 kr. á ári.

Mikið hefur verið um þetta deilt, þ.e. ákvörðun ríkisstjórnarinnar að láta persónuafsláttinn ekki fylgja vísitölu neysluverðs ein sog áður hafði verið ákveðið. Hafa meðal annars forsvarsmenn verkalýðsfélaga gagnrýnt þá ákvörðun harðlega.