Vegna glufu í afsláttarfyrirkomulagi á heimasíðu leikfangaverslunarinnar Hamleys, sem er í eigu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons, lítur út fyrir að skortur verði á leikföngum í verslununum á hápunkti jólavertíðarinnar, segir í frétt The Guardian.

Notendur vefsíðunnar HotUKDeals komu auga á smugu í afsláttarkerfi sem gerði notendum kleift að kaupa vörur á vefsíðu Hamleys með 60% afslætti.

Aðeins örfáum klukkustundum eftir að tilboðið var sett á netið höfðu þúsundir manns nýtt sér smuguna og keypt upp stóran hluta birgða Hamleys, langt undir uppsettu verði. Þar sem sameiginleg birgðastöð er fyrir verslanir Hamleys og netverslunina, munu mistökin hafa áhrif á allan rekstur fyrirtækisins.

Málið kom upp á laugardaginn síðastliðinn og eftir hádegi á sunnudaginn var meira en helmingur vinsælustu leikfanga Hamleys uppurinn. Haft er eftir einum notenda vefsíðunnar að líkja mætti ástandinu við víkingaárás, þar sem rænt hafi verið og ruplað.

Tilboðið var fljótlega dregið til baka, en það liggur ekki enn fyrir hversu margir nýttu sér glufuna. Forstjóri Hamleys, Nick Mather, staðfesti að mistök hefðu orðið og að málið hafi verið leyst innan sólarhrings. Mather segir að fyrirtækið muni virða öll þau viðskipti sem gerð voru á meðan villan var virk.

Svokallaðir verslunartölvuþrjótar (e. consumer hackers) hafa verið að spretta upp í auknum mæli, segir í frétt The Guardian, en það er fólk sem leggur ómælda vinnu í að finna upp brögð og brellur til að spara sér peninga í netverslunum.

Forstöðumaður heimasíðunnar moneysavingexpert.com, Martin Lewis, segir að fyrirtæki hafi í gegn um tíðina eytt fúlgum fjár í auglýsingar, markaðssetningu og sölubrögð, en þangað til internetið kom til sögunnar hafi neytendur ekki haft nein svör við því. Nú geti neytendur nýtt sér öll þau brögð og brellur sem verslanir hafa notað gegn þeim fram að þessu. Um 1,5 milljónir skoða heimasíðu hans í hverjum mánuði, en þar geta neytendur fylgst með öllum þeim göllum sem kunna að koma upp á meðal þúsunda vefverslanna, segir í fréttinni.