Tveir æðstu stjórnendur Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður og Gunnar Sigurðsson forstjóri, hafa gert samkomulag um að halda stjórnarsætum sínum við fjórar af verslanakeðjum félagsins, House of Fraser, Iceland, Aurum og Hamleys.

Frá þessu er greint í frétt thisismoney.co.uk þar sem segir að samkomulag hafi verið gert um þetta við Landsbankann sl. fimmtudagskvöld eftir að það hafi verið borið undir lögmenn. Á föstudag hafi Baugur svo tilkynnt að félagið væri hætt við að mótmæla því að BG Holding færi í greiðslustöðvun.

Samkomulagið sagt nauðsynlegt fyrir reksturinn

Í fréttinni segir að þetta hafi vakið furðu hjá starfsmönnum í höfuðstöðvum Baugs við Bond Street í London, sem standi frammi fyrir uppsögnum með litlar vonir um útborgun. Þar segir ennfremur að Jón Ásgeir muni fá greidd 20.000 pund á mánuði, um 3,3 milljónir króna, og meðal fríðinda séu aðgangur að fyrirtækisbíl og einkaþyrlu.

Thisismoney.co.uk hefur eftir heimildarmanni, sem sagður er standa nærri Jóni Ásgeiri, að samkomulagið hafi verið nauðsynlegt til að viðhalda samfellu í rekstrinum við erfiðar markaðsaðstæður.

„Þeir þekkja reksturinn vel og verða bankanum og tilsjónaraðila greiðslustöðvunarinnar til ráðgjafar,“ er haft eftir heimildarmanninum.

Eignirnar aðeins seldar á sanngjörnu verði

Í fréttinni eru ýmsir nefndir til sögunnar sem sagðir eru vera að skoða þau tækifæri sem í falli Baugs felast, þeirra á meðal Sir Philip Green. Þeir eru hins vegar sagðir geta lent í hörðum átökum við íslensku bankana, sem segi að eignirnar verði aðeins seldar á sanngjörnu verði.