Jón Ásgeir Jóhannesson hefur sest í stjórnarformannssæti FL Group, að því fram kemur í tilkynningu. Vegna breytinga á skipulagi Baugs Group hf. hefur Skarphéðinn Berg Steinarsson ákveðið að láta af störfum sem formaður stjórnar FL Group hf. Skarphéðinn mun áfram sitja í stjórn FL Group hf.

FL Group er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig annars vegar í áhrifafjárfestingum og umbreytingarverkefnum þar sem áhersla er lögð á langtíma fjárfestingar í skráðum og óskráðum félögum og hins vegar í markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu- og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins.

Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í Kaupmannahöfn og London. Það fjárfestir einkum í Norður-Evrópu, aðallega á Norðurlöndum og Bretlandi, en vinnur þó einnig á öðrum mörkuðum. FL Group er skráð á OMX Nordic Exchange í Reykjavík (OMX: FL). Í lok mars 2007 námu heildareignir félagsins 303 milljörðum króna og markaðsvirði þess var 236 milljarðar.

Stærstu hluthafar FL Group eru: Oddaflug B.V (19,8%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra félagsins; Gnúpur fjárfestingafélag (19,1%); Baugur Group (18,2%) og Icon og Materia Invest (10,7%). Í sumum tilvikum eru hlutir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga.