Jón Ásgeir Jóhannesson er 14. áhrifamestur í breska tískuheiminum samkvæmt nýrri úttekt breska blaðsins The Drapers. Hann fellur því niður um tíu sæti frá síðustu úttekt blaðsins sem gerð var fyrir ári. Þó er hann efstur þeirra sem ekki eru frá Bretlandi eða Írlandi -- en í þeim hópi er einnig Osama bin Laden!

Ármann Þorvaldsson kemur nýr inn á listann í 31. sæti. Ármann er forstjóri Singer&Friedlander en var áður framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka. "Kaupþing er sá banki sem hefur haft mest áhrif á breska tískuheiminn á þessu ári," segir í umsögn blaðsins um Ármann, "og Ármann virðist vera akkerið í sambandi Baugs, Kevins Stanfords og fjölmargra viðskiptafélaga þeirra." Segir blaðið að Ármann hafi greitt fyrir kaupum Baugs á Jane Norman, kaupum Shoe Studio Group á Rubicon og skráningu Mosaic Fashions á íslenskan hlutabréfamarkað.

Téður Kevin Stanford er í 33. sæti listans. "Hann á 10% hlut í Baugi -- sem innan tíðar gæti jafngilt álíka stórum hlut í "high street"," segir í umsögn blaðsins, sem þannig gefur í skyn að umsvif Baugs í breskri verslun eigi enn eftir að aukast umtalsvert.

Efstur á listanum er Arthur Ryan, hinn sjötugi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Primark og Penneys. Hann fer upp um heil 28 sæti, enda jók hann verslunarrými sitt um 60% á árinu. Annar er Stuart Rose forstjóri Marks & Spencer og þriðji er Philip Green eigandi Arcadia, sem var í öðru sæti í fyrra.

Um Jón Ásgeir segir blaðið að hann hafi skiljanlega látið lítið fyrir sér fara eftir að hafa verið ákærður fyrir fjársvik -- og þess vegna fallið niður um tíu sæti. Þrátt fyrir þetta hafi Jón Ásgeir hins vegar náð að bæta MK One og Jane Norman við veldi Baugs. Blaðið segir að ekki sé víst að aukinn eignarhlutur í French Connection, sem nú er 14%, reynist arðbær fjárfesting, enda hafi ekki gengið sem skyldi að laga rekstur félagsins. Hermt er að Jón Ásgeir sé orðinn fráhverfur Íslandi vegna dómsmálanna á hendur sér. "Það getur bara þýtt að hann verði meira í Bretlandi og hafi því meiri tíma en áður til að auka við fjárfestingar sínar hér," segir blaðið.

Jón Ásgeir er sem fyrr segir áhrifamestur þeirra sem hvorki eru frá Bretlandi né Írlandi. Næstur í þeim hópi er Hedi Slimane hjá Dior Homme í 24. sæti listans og á eftir honum sjálfur Osama bin Laden í 27. sæti. Ástæðan er árásir Al-Kaída á neðanjarðarlestir og strætisvagna í Lundúnum í júlí síðast liðnum, sem hafi dregið úr fjölda ferðamanna til borgarinnar.

Þá er Jón Ásgeir þriðji hæstur þeirra sem eru yngri en fjörutíu ára. Efstur í þeim hópi er Paul Sweetenham forstjóri TK Maxx en næstefstur er Simon Wolfson forstjóri Next.

Þess má geta að Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashions, er í 16. sæti listans og fer upp um níu sæti. Don McCarty, forstjóri Rubicon (áður Shoe Studio Group), sem Baugur og Kaupþing eiga einnig hlut í, er í 25. sæti og fer upp um ellefu. Blaðið segist reikna með að Rubicon verði skráð í íslensku Kauphöllina eins og Mosaic.