Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Glitnis, vildi ekki að stjórn Glitnis féllist á hugmyndir Seðlabankans um þjóðnýtingu bankans og var ósáttur við niðurstöðu stjórnar bankans. Stjórnin var á báðum áttum um hvort fylgja ætti leiðsögn Seðlabankans en samþykkti loks að vinna með Seðlabankanum að málinu. Lárus Welding, forstjóri bankans, var svo mættur til blaðamannafundar niðri í Seðlabanka skömmu eftir að stjórnarfundi Glitnis lauk um morguninn.

Stjórnendur Glitnis og Stoða, aðaleiganda bankans, sátu á fundum fram á nótt, en það var fyrst í gærkvöld sem forsvarsmönnum bankans var tilkynnt að ríkisstjórnin og Seðlabankinn vildu þjóðnýta bankann með því að leggja fram 84 milljarða króna í nýju hlutafé og eignast með því 75% hlutafjár í bankanum. Lárus tók svo í gærmorgun tilboði Davíðs Oddssonar, formanns bankastjóra Seðlabankans, um að hann yrði áfram forstjóri bankans.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bauð Davíð einnig Þorsteini Má Baldvinssyni að halda stjórnarformennsku. Þorsteinn Már hefur ekki svarað tilboði Davíðs, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en í viðtölum í gær gaf hann í skyn andstöðu sína og vonbrigði með þá leið sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa farið í málinu.

______________________________________

Nánar er fjallað um Glitni í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .