Jón Ásgeir Jóhannesson segir í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis að hann sé saklaus af ákæru í Aurum-málinu og að samskipti hans og Lárusar Welding bankastjóra Glitnis hafi ekki verið óeðlileg. Þá segir hann að ef saksóknari ætli að ákæra hann fyrir frekju þá verði hann að setja það þannig fram í ákæruskjalinu.

Þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var aðaleigandi bankans, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi starfsmenn Glitnis, eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. vorið 2008 til kaupa hlutabréf í Aurum Holding af Fons, fjárfestingarfélagi Pálma Haraldssonar, en FS38 ehf. var dótturfélag Fons.

Í viðtalinu er vitnað til þeirra orða Lárusar að Jón Ásgeir hefði komið fram við hann eins og útbússtjóra en ekki forstjóra Glitnis. Jón Ásgeir segir samskipti þeirra tveggja hins vegar hafa verið algerlega eðlileg. „Eins og menn vita sem senda tölvupósta að þegar kannski tölvuskeyti sem skipta hundruðum fara á milli manna og tvö eða þrjú eru tekin út og ekkert annað sýnt, þá er hægt að taka hluti úr samhengi. Við munum hins vegar sýna fram á í málflutningi, ef hann fer fram, að okkar samskipti voru eðlileg. Þessi samskipti mín við Lárus voru í samræmi við samskipti mín við aðrar bankastofnanir hér á landi."