„Höftin eru skammtímavandamál. Hið raunverulega vandamál er kostnaðarliður við að vera með höft og kostnaður við að taka þau af. Ódýrara er að leggja höftin af í dag,“ segir Jón Daníelsson, hagfræðingur og prófessor prófessor við London School of Economics í Bretlandi. Hann sagði í erindi sínu á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í dag gjaldeyrishöftin vítahring sem muni þrengja að og verði æ erfiðara að rjúfa. Hann sagði hægt að afnema höftin á þremur mánuðum.

Fyrst þurfi Seðlabankinn að efna til gjaldeyrisútboðs og finna verð á krónuna sem nær því að vera markaðsverð. Undirbúa þyrfti aðgerðir fyrir þá sem yrðu fyrir vondum áhrifum á gengislækkun krónunnar eftir afnám hafta og samhliða þyrfti að tilkynna stefnumörkun sem yki traust á hagkerfinu, s.s. um skattamál, ópinbera reglustýringu, erlenda fjárfestingu og fjármálakerfið. Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn auki ekki trúverðuleika.

Þá kom Jón inn á herðingu gjaldeyrishafta í vikunni. Hann undraðist að Seðlabankinn hafi ekki séð útflæðið fyrir.

„Reynslan landa þar sem höft hafa verið innleidd sýna að alltaf munu einhverjir reyna að komast fram hjá þeim. Vítahringurinn mun því versna. Eina raunhæfa lausnin er að leggja gjaldeyrishöftin af mjög hratt,“ sagði hann.

Evran og Grikkland

Jón sagðist telja alla hafa vitað af því að Grikkland stæðist enga mælikvarða um að ganga í evruna í upphafi leiks. Samt hafi þeim verið hleypt inn í evrusamstarfið. Staða Grikklands nú er tvísýn því jafnvel eftir 50% til 70% skuldaniðurfellingu á skuldum Grikklands til einkaaðila. Hann benti á að skuldir gríska ríkisins nemi nú 120% af landsframleiðslu. Það sé alltof hátt skuldahlutfall. Til samanburðar hafi Argentína orðið gjaldþrota með 40% skuldir af landsframleiðslu.

Jón telur að þrátt fyrir þetta sé líklegt að evrusamstarfið muni komast gegnum erfiðleikana. Það verði gert með svokölluðum smáskammtalækningum. Í þeim geti jafnvel falist eyðilegging, t.d. á gríska kerfinu.