Jón Heiðar Gunnarsson hefur verið ráðinn yfirmaður birtingarmála hjá auglýsingastofunni Sahara. Stofan hefur stofnað nýja deild í kringum birtingarmál hefðbundna miðla, en hingað til hefur auglýsingastofan nær eingöngu veitt ráðgjöf við birtingar á stafrænum miðlum.

Jón Heiðar hefur verið ráðinn til að leiða þessa uppbyggingu, en hann hefur starfað sem sérfræðingur hjá Birtingarhúsinu ehf., frá árinu 2014. Þar áður var hann blaðamaður hjá Morgunblaðinu, atvinnumaður í handbolta PAUC í Frakklandi, framkvæmdastjóri hjá Jafningafræðslunni, verkefnastjóri hjá Hinu húsinu og íþróttafréttamaður á RÚV.

Jón Heiðar lærði stafræna markaðssetningu og netverslun hjá Opna Háskólanum í Reykjavík á síðasta ári, en hann er með MA í blaðamennsku og BA í heimspeki frá Háskóla Íslands.

„Við höfum fundið fyrir ánægju hjá viðskiptavinum okkar með fyrirkomulag birtinga í stafrænum miðlum og eftirspurn eftir því að við útvíkkun það fyrirkomulag á hefðbundna miðla og við viljum nýta sama tekjumódel þar,” segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri SAHARA um þessa nýju þjónustu.

„Birtingaþjónusta SAHARA mun ekki þiggja þjónustulaun frá fjölmiðlum í tengslum við birtingar, þess í stað renna þjónustulaun beint í vasa viðskiptavina SAHARA. Við munum eingöngu rukka fyrir tímavinnu og kerfiskostnað í tengslum við birtingaþjónustu en ekki fyrir þjónustulaun. Þjónustan er boðin í mismunandi pökkum eftir umfangi ráðgjafar og kostnaður við ráðgjöfina er því fastur og þekktur fyrirfram. Við sjáum eftirspurn eftir breytingu á hefðbundnari módelum og við erum að bregðast við því,” sagði Davíð ennfremur.

Jón Heiðar er sagður í tilkynningu hafa mikla reynslu í faginu, en síðustu ár hefur hann starfað við birtinga- og markaðsráðgjöf fyrir mörg af þekktustu og stærstu vörumerki landsins.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að leiða þessa vegferð hjá SAHARA og markmiðið með stofnun deildarinnar er að finna nýjar leiðir fyrir viðskiptavini SAHARA, enda spennandi tækifæri til staðar á markaði til að nýta betur það fjármagn sem viðskiptavinir verja í birtingar og við viljum nálgast markaðinn með bæði nýstárlegum og faglegum hætti,“ segir Jón Heiðar.

Davíð Lúther segir ráðninguna rökrétt framhald af sókn fyrirtækisins undanfarið. Hann segir fyrirtækið hafa verið í stöðugum og heilbrigðum vexti og þetta sé klárlega skref að viðhalda þeirri vegferð.

„Víðtæk reynsla Jóns Heiðars, bæði úr fjölmiðlum og markaðsmálum mun koma sér virkilega vel þegar það kemur að þeirri 360 gráðu þjónustu sem við viljum bjóða okkar viðskiptavinum upp á hjá SAHARA. Með ráðningunni erum við einfaldlega að gera okkur betur í stakk búin fyrir það sem framundan er hjá okkur næstu misserin og hann kemur inn með sterkan bakgrunn sem smellpassar í okkar samhenta hóp. Við bjóðum hann velkominn til starfa og hlökkum til samstarfsins,“ segir Davíð Lúther.