Sérstakur saksóknari hefur ákært Jón Garðar Ögmundsson fyrir undanskot frá skatti félagsins Lystar ehf. Lyst var móðurfyrirtæki McDonalds á Íslandi og skyndibitastaðarins Metro.

Fréttablaðið fjallar um málið í dag.

Blaðið segir að samkvæmt ákæru hélt Jón Garðar eftir staðgreiðslu opinberra gjalda upp á rúmar 22,5 milljónir króna af launum starfsmanna árin 2009 og 2010 en stóð ekki skil á þeim. Greiðslurnar sem ekki skiluðu sér voru fyrir mánuðina. apríl, nóvember og desember 2009 og svo janúar til maí 2010.

Fréttablaðið rifjar upp að rekstur Metro var seldur frá Lyst yfir til félagsins Lífs og heilsu ehf. í júní árið 2010. Skömmu síðar varð Lyst gjaldþrota. Reksturinn var svo í nóvember árið 2010 seldur frá Lífi og heilsu til félagsins M-veitinga ehf. Líf og heilsa varð gjaldþrota um síðustu áramót.