Jón Ólafur Halldórsson, fyrrum forstjóri Olís og sitjandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, og Margrét Sanders, ráðgjafi hjá Strategíu og oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, tóku sæti í stjórn verktakafyrirtækisins VHE ásamt Gunnari Ármannssyni, lögmanni fyrirtækisins, í lok síðasta árs.

Viðskiptablaðið fjallaði um bættan rekstur hjá VHE á dögunum en félagið skilaði rekstrarhagnaði á síðasta ári eftir samtals 1,6 milljarða króna rekstrartap árin 2019-2020, einkum vegna erfiðleika í byggingaverkefnum, þar á meðal fyrir fasteignafélagið Upphaf. Félagið stefndi í þrot árið 2020 en endurmat á móðurfélagsins leiddi í ljós að eigið fé var neikvætt. Í kjölfar greiðslustöðvunar náðust nauðasamningar með helmings eftirgjöf skulda.

Í lok síðasta árs ákvað VHE að skipta um stjórn þannig að í stað fjölskyldumeðlima kæmu reyndir óháðir stjórnarmenn inn í stjórn félagsins. Jafnframt yrði stjórnin skipuð þremur mönnum í stað fimm.

Gunnar Ármannsson segir í samtali við Viðskiptablaðið að með þessari breytingu vilji VHE styrkja reksturinn inn á við. Þá sé það sterkt merki til markaðarins að Jón Ólafur og Margrét séu tilbúin að leggja nafn sitt við félagið og sýnir að VHE sé að taka á sínum málum með föstum og góðum tökum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.