Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vera að íhuga það að bjóða sig fram í 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í vor.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og fyrrv. varaformaður flokksins, var í öðru sæti listans á eftir Bjarna Benediktssyni í síðustu kosningum.

Jón staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að hann hygðist gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu og leitast eftir hærra sæti á lista flokksins. Hann var í fjórða sæti listans í síðustu kosningum. Hann vildi þó ekki staðfesta að hann hygðist bjóða sig fram í 2. sæti listans og sagðist vera að íhuga það þessa dagana.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Jón að undanförnu fundað með stuðningsmönnum sínum með það í huga að bjóða sig fram í 2. Sæti listans. Ekki er hægt að segja að hann sé að bjóða sig fram gegn Þorgerði Katrínu þar sem hún hvorugt þeirra hefur tilkynnt opinberlega hvað það hyggst gera í komandi prófkjörum. Búast má við því að Sjálfstæðisflokkurinn haldi prófkjör síðla haust, t.d. í nóvember.

Jón hefur setið á Alþingi frá árinu 2007.  Hann var sem fyrr segir í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum (árið 2009) en Ragnheiður Ríkharðsdóttir var í 3. sæti listans. Ekki liggur fyrir hvað þær Þorgerður Katrín og Ragnheiður munu gera í komandi prófkjörum.