Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstarréttardómari ætlar að snúa aftur í lögmennskuna, en hann staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið. Hann mun hefja störf í samstarfi við son sinn Konráð, sem fyrst greindi frá þessum áformum feðganna á Facebook í gær. Þar sagði Konráð: „Eftir fimm afar góð ár á OPUS er kominn tími til að breyta til. Mig hefur lengi langað til að vinna með pabba mínum á lögmannsstofu. Hann ætlar að sækja réttindin sín og við ætlum að hefja störf hjá Veritas lögmönnum þann 1. mars.“

Jón Steinar segist enn vera svo fullur orku að hann geti ekki hugsað sér að setjast í helgan stein. Fyrst um sinn ætla þeir feðgar að starfa tveir saman, en hann segir ekki útilokað að í hópinn bætist þegar fram líða stundir. „Ég á tvö önnur börn sem bæði eru lögfræðingar og það er aldrei að vita nema þau bætist í hópinn, en fyrst um sinn verðum við tveir.“