Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, segir að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í Stím-málinu sé áfall fyrir þá sem vilja reyna að halda uppi réttarríki á Íslandi. Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir Jón Steinar sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Jón skrifar greinina um efnisþætti er varða fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, Lárus Welding en hann var ákærður fyrir umboðssvik sem voru aðallega í tengslum við lánveitingu Glitnis til félagsins í Stím.

Bankinn bætti fjárhagstöðu sína

Jón segir að í málinu hafi verið sýnt fram á að í viðskiptunum hafi bankinn ekki aukið við fjártjónsáhættu, eins og þarf að sýna fram á til að að sakfella fyrir umboðssvik. Þvert á móti hafi staða bankans verið betri eftir viðskiptin.

Lánið var veitt til að fjármagna að hluta kaup á hlutabréfum í Glitni, sem voru á þeim tíma í eigu bankans. Eftir kaup Stím á hlutabréfunum hafi bankinn fengið tryggingar fyrir láninu, þ. á m. veð í hinum seldu hlutabréfum auk annara trygginga. Jón segir einnig að af hálfu sakbornings hafi verið lögð fram gögn og upplýsingar sem sýndu með ótvíræðum hætti að bankinn bætti fjárhagslega stöðu sína verulega með þessum viðskiptum. Var þar sýnt fram á að ávinningurinn nam yfir tveimur milljörðum.

Jón Steinar gagnrýnir einnig forsendur dómsins að bankinn hefði getað selt öðrum en Stími bréfin á markaðsvirði þeirra. Jón segir að erfitt sé að átta sig á þýðingu þessa fyrir úrlausn málsins og að staðhæfing um þetta sé tekin upp af dóminum sjálfum án þess að til grundvallar hafi legið nokkur gögn.

Rökleysa dómsins

Jón segir að bréfin hafi verið seld kaupanda á markaðsvirði og að baki hafi verið tryggingar fyrir kaupunum. Jón segir ummæli dómsins um að líkur væri á að bréfin myndu lækka hratt í verði vera rökleysu.

„Í forsendum dómsins er sagt, þegar fjallað er um tryggingarnar, að á sölutímanum hafi verið allar líkur á því að virði hlutabréfanna myndi lækka hratt. Ef það er er reyndin, hvernig gat þá bankinn hafa orðið fyrir fjártjóni eða hættu á slíku tjóni með því að selja bréfin á markaðsverði þess tíma sem salan fór fram á. Var hann þá ekki einfaldlega að fá hærra verð fyrir bréfin en fyrirsjáanlega yrðu unnt að fá síðar?“

Einungis einn ákærður

Jón Steinar bendir einnig á að þrátt fyrir að lánveitingin hafi farið fyrir áhættunefnd bankans þá sé hann einungis einn ákærður af nefndarmönnum, en lánið var samþykkt án athugasemda úr nefndinni.