Jónína Bjartmarz, framkvæmdastjóri Okkar kvenna í Kína ehf. var kjörin formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins á aðalfundi ráðsins sem fram fór á Hótel Reykjavík Natura.

Jónína er fyrsta konan sem gegnir formennsku í ráðinu í 23 ára sögu þess.Hún hefur undanfarin ár staðið í margvíslegum viðskiptum í Kína og stundað þar nám. Hún var í námi við Xiamen-háskóla í Fujian í Kína á árunum 2007-2008 og rekstrar- og framkvæmdastjóri BR boutiqe hótels í Kína 2008-2011. Síðan þá hefur hún rekið OK.

Jónína var áður m.a. sjálfstætt starfandi lögmaður, alþingismaður og umhverfisráðherra.

Á aðalfundinum voru auk Jónínu kjörnir í stjórn ÍKV þeir Ársæll Harðarson, forstöðumaður á sölu- og markaðssviði hjá Icelandair, sem verið hefur formaður viðskiptaráðsins undanfarin sex ár, og Einar Rúnar Magnússon, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Arctic Green Energy.