Þýska ríkisstjórnin samþykkti í morgun að setja á stofn svokallaðan „vondan banka“ (e.bad bank) og mun á næstu mánuðum kaupa upp eitruð veð sjö þýskra banka.

Þetta hugtak hefur áður verið notað þegar stjórnvöld kaupa upp eitruð veð af fjármálafyrirtækjum í þeirri von að fría þau undan ábyrgð þeim sem síðan á að leiða til þess að fjármálakerfið getur svo að segja hafið eðlilega starfssemi.

Skemmst er að minnast þess að bandarísk stjórnvöld ákváðu fyrr á þessu ári að kaupa upp eitruð veð að verðmæti 1.000 milljarða dala.

En áætlun þýskra yfirvalda er þó háð skilyrðum. Þannig krefjast stjórnvöld þess að einhverjir bankanna sameinist og að innan tólf mánaða verði einungis 3-4 bankar starfandi af þeim sjö sem um ræðir.

Þá munu stjórnvöld einnig setja á stofn nýtt fjármálaeftirlit, sem kallað verður FMSA, en stofnunin verður með höfuðstöðvar í Frankfurt. Samkvæmt frétt Reuters er um litla breytingu að ræða frá því sem nú er en valdsvið hins nýja eftirlits verður skýrara en áður fyrir utan það að starfsmannafjöldinn verður aukinn verulega.

En fyrst að Þýskaland er hér til umfjöllunar þá greinir BBC frá því í dag að rúmlega 7.700 fyrirtæki hafi lýst yfir gjaldþroti á fyrstu þremur mánuðum þessa árs sem er 10% aukning frá sama tíma í fyrra.