Finnski bankamaðurinn sem fara á yfir regluverk og starfshætti við fjármálaeftirlit hér á landi heitir Kaarlo Vilho Jännäri og er fyrrverandi forstöðumaður fjármálaeftirlitsins þar í landi.

Í áætlun stjórnvalda vegna láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er talað um að ráða reyndan bankaeftirlitsmann til að fara yfir regluverk og starfshætti við bankaeftirlit og leggja sömuleiðis til nauðsynlegar breytingar.

Sá maður er nú fundinn.

„Þessi ráðgjafi mun einkum beina sjónum að reglum um lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar einstakar áhættur, krosseignatengsl og hagsmunalegt sjálfstæði eigenda og stjórnenda," segir í áætlun stjórnvalda.

„Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin. Mat þetta, sem gert verður opinbert, á að liggja fyrir í lok mars 2009. Við munum ræða fyrir fram sérhverja breytingu á áformum okkar í þessu efni við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," segir enn fremur í áætluninni.