*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 15. september 2019 17:09

Kærðu Glitni HoldCo til lögreglu

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. kærði í apríl í fyrra Glitni HoldCo ehf. til lögreglu fyrir að rangfæra sönnunargögn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. (ÚR) kærði í apríl í fyrra Glitni HoldCo ehf. (GH) til lögreglu fyrir að rangfæra sönnunargögn í dómsmáli sem félagið hefur höfðað gegn útgerðinni. Þetta kemur fram í skýringum við ársreikning ÚR fyrir síðastliðið rekstrarár.

Málið var upphaflega höfðað árið 2012 en fellt niður í ársbyrjun 2016 vegna útivistar lögmanns stefnanda. Það var höfðað að nýju í apríl 2016. Í málinu krefur GH ÚR um greiðslu tveggja milljarða, auk dráttarvaxta, samkvæmt 31 samningi en ÚR telur 23 samninga ógilda þar sem enginn starfsmaður félagsins hafi beðið um eða gert umrædda samninga.

Úrskurðarnefnd lögmanna hefur áður úrskurðað í málinu en þar var fundið að háttsemi Ólafs Eiríkssonar, lögmanns GH, fyrir að veita lykilvitni í málinu rangar upplýsingar. Kæra ÚR frá því í fyrra lýtur að því að GH hafi fjarlægt sjö sentimetra af umþrættum samningum til að láta þá líta betur út fyrir sinn málstað. Sá angi málsins hafði einnig verið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd lögmanna en hún vísað honum frá þar sem hann barst ekki til nefndarinnar innan tímamarka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.