Rússneska kaffihúsakeðjan Ziferblat verður fjögurra ára í ár, en hún er fyrst nú farin að vekja athygli á Vesturlöndum eftir að hún opnaði sitt fyrsta kaffihús í London fyrir um ári síðan. Nýtt kaffihús er svo að opna um þessar mundir í Manchester.

Það sem gerir Ziferblat frábrugðið öðrum kaffihúsum er að allt þar inni, kaffi og smákökur þar á meðal, er ókeypis, en gestir greiða fyrir tímann sem þeir verja inni á kaffihúsinu. Ivan Meetin, stofnandi fyrsta Ziferblat kaffihúsins, segir gesti frekar vera "míkróleygjendur" en hefðbundna kaffishúsagesti.

Þegar gestur kemur inn á kaffihúsið fær hann klukku sem hann hefur með sér á borðinu sínu. Þessi klukka sýnir svo hvað hann þarf að greiða þegar hann vill yfirgefa staðinn. Nafnið Ziferblat er einmitt fengið af orðinu zifferblatt sem þýðir klukkuskífa á rússnesku og þýsku.

Á ensku kaffihúsunum kostar mínútan fimm pens eða um 10 íslenskar krónur. Þýðir það að klukkustundin kostar um 600 krónur, sem er ekki fjarri því sem fólk þarf að greiða fyrir kaffibolla á flestum kaffihúsum.