Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal vinnur nú að því að breyta búnaði sínum þannig að félagið notist við rafmagnsþurkun. Í dag notar fyrirtækið propangas sem orkugjafa en að sögn Guðmundar Magnússonar, framkvæmdastjóra félagsins, er ætlunin að notast við innlendan orkugjafa í framtíðinni.

Að sögn Guðmundar helst breyting á orkugjafa í hendur við það að félagið hyggst auka framleiðslu sína verulega en góð eftirspurn hefur verið eftir vörum félagsins. Til að unnt sé að notast við rafmagn þarf að leggja nýja heimtaug að félaginu og er nú unnið að því. Að sögn Guðmundar vonast þeir eftir því að geta skipt um orkugjafa í haust.