Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kallar eftir því að samstarf Íslands og Bandaríkjanna verði aukið. Þetta kom fram í framsögu hennar á hádegisverðarfundi AMÍS um TTIP fríverslunarsamninginn á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

„Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að auka viðskiptasamband Íslands við Bandaríkin," segir Ragnheiður Elín. Hún óskaði eftir því að hver sem niðurstaða TTIP viðræðnanna yrði myndu Bandaríkin leitast við að gera fríverslunarsamning við Íslendinga. „Það myndi senda sterk skilaboð ef Bandaríkin myndu gera fríverslunarsamning við langvarandi bandamann og vinaþjóð eins og Íslendinga,“ segir Ragnheiður Elín.

Reglur um merkingar þungar í vöfum

Ragnheiður Elín fjallaði jafnframt um þreifingar Costco verslunarrisans hér á landi og gerði reglur um merkingar að matvælum að umtalsefni sínu. Samkvæmt reglur um merkingar á matvælum, sem eru komnar frá Evrópusambandinu, þurfa íslenskir innflytjendur á matvælum frá Bandaríkjunum nú að merkja hverja einustu vöru með límmiðum sem uppfylla skilyrði reglanna, t.a.m. með nákvæmri innihaldslýsingu í hverjum 100g vörunnar. Það sé bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Hún segir reglurnar vera fráhrindandi fyrir erlend verslunarfyrirtæki eins og Costco.

Hún segist jafnframt hafa tekið eftir því að reglunum sé misjafnlega framfylgt, eftir því hvort vörurnar séu frá Bandaríkjunum, Evrópu eða Íslandi. Nefndi hún sem dæmi að hún hafi verið í íslenskri matvöruverslun fyrir skemmstu þar sem hún skoðaði innihaldslýsingu á Íslensku múslíi. „Á innihaldslýsingunni stóð: „Múslí. Gott með súrmjólk eða jógúrt." Það er undarlegt hvernig þessi vara slapp í gegnum nálarauga eftirlitsmannsins," segir Ragnheiður Elín.