Ríkisstjórn Kanada samþykkti í lok nóvember nýja stefnu í flugumferðarmálum sem stóreykur möguleika erlendra flugfélaga til að auka tíðni flugferða og fjölda áfangastaða í Kanada. Nýju stefnunni er ætlað að auka samkeppni á kanadíska flugmarkaðnum. Hingað til hafa stjórnvöld Kanada verið mjög sparsöm á að veita flugleyfi til erlendra flugfélaga og sett ströng skilyrði og takmarkanir á þau leyfi sem veitt eru. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingastjóra Icelandair, munu þessar breytingar hafa í för með sér mikilvægt sóknartækifæri fyrir Icelandair á Kanadamarkaði.


"Við munum hefja flug þrisvar í viku til Halifax á vesturströnd Kanada í maí á næsta ári en höfum áhuga á að hefja flug til fleiri borga í Kanada," segir Guðjón."Engar ákvarðanir hafa verið teknar en við horfum til borga eins og Toronto og Montréal," segir Guðjón og bætir við að aðallega sé verið að horfa til borga í austanverðu landinu sem myndu falla vel inn í leiðakerfi Icelandair.


Icelandair flaug áður til Halifax í Kanada en hætti því árið 2001 meðal annars vegna erfiðra samskipta við flugmálayfirvöld í Kanada sem vildu ekki gefa Icelandair heimild til að fjölga ferðum sínum. "Okkar reynsla er sú að erfitt hefur verið að eiga við kanadísk stjórnvöld og regluverkið í kringum flugmál þar í landi. En nú vitum að stefnan er að breytast og kanadísk stjórnvöld hafa sýnt vilja í þá átt að auka frelsi á þessum markaði. Í kjölfarið höfum við verið að minna á okkur og láta í ljós áhuga okkar á að bæta við okkur ferðum og áfangastöðum," segir Guðjón og bætir við að eins og staðan sé í dag hafi Icelandair eingöngu heimild fyrir fimm flug í viku til Kanada og er sú heimild nýtt til Halifax flugsins.

Icelandair hefur verið að auka leiðaframboð að undanförnu og stefnir á frekari umsvif í þá áttina. Guðjón segir að Kanadamarkaður sé sérstaklega áhugaverður í þessu sambandi. Kanada er nær okkur en Bandaríkin og tengsl fara vaxandi á milli Íslands og Kanada, bæði viðskiptatengsl og svo eru miklir möguleikar fyrir ferðaþjónustu í báðar áttir. Auk þess er um að ræða möguleika fyrir flug á milli Evrópu og Kanada. Guðjón segir að endurkomu Icelandair til Halifax sé vel tekið. "Borgar- og flugvallayfirvöld í Halifax hafa fagnað endurkomu okkar ákaflega og í um hana hefur verið skrifað í helstu blöðum þar í borg enda er litið á flug okkar þangað sem mikla samgöngubót," segir Guðjón.