Í dag, 1. desember mun útvarpsstöðin Kaninn, sem er í eigu Einars Bárðarsonar, hefja útsendingar á fréttatíma Morgunblaðsins og Skjás eins, sem sýndar eru á Skjá einum á sama tíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kananum.

„Í dag eru þrír mánuðir síðan Kaninn fór í loftið og við erum bara stolt af því hvað náðst hefur góður árangur á þessari litlu stöð okkar,“ segir Einar Bárðarson, eigandi Kanans í tilkynningunni.

„Ég er þakklátur yfir því hvað fólk hefur tekið stöðinni vel og ekki síst hvað auglýsendur hafa hvatt okkur áfram og staðið þétt við bakið á okkur. ÉG tel það svo að hafa stærstu og traustustu fréttastofu landsins að baki okkur á Kananum mun skila sér í aukinni hlustun og trúverðugleika. Ég vona líka að þetta efli þessa nýja fréttastofu. Það er ekki alltaf sem maður getur setið við sjónvarpið og horft á fréttir. Sér í lagi eins og samfélagið er í dag. Þá ætti það að vera kærkomið að fá fréttirnar sínar í útvarpi líka.“