Fyrirtækið ALUCAB ehf. hefur, samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, verið skráð hjá hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra. Fyrirtækið var stofnað hinn 25. júlí sl. en samkvæmt auglýsingunni er tilgangur þess „... vinnsla áls og annarra málma/efna með það að markmiði að framleiða kapla og aðra leiðara.” Jafnframt er fjárfestinga- og lánastarfsemi tekin til sem verksvið félagsins en það er skráð til húsa í Síðumúla 5 í Reykjavík.

Á sama stað er að finna ráðgjafafyrirtækið Intellecta ehf. en þrír af stofnendum ALUCAB eru einmitt ráðgjafar hjá Intellecta. Þetta eru þeir Þórður Snorri Óskarsson, sem er framkvæmdastjóri beggja félaganna, Einar Þór Bjarnason og Kristján Börkur Einarsson sem samkvæmt hlutafélagaskrá er stjórnarformaður hins nýstofnaða nýsköpunarfyrirtækis. Tveir hinir síðarnefndu hafa, samkvæmt heimasíðu Intellecta lokið M.Sc.-gráðu í verkfræði en Þórður hefur doktorsgráðu í sálfræði og leiðir mannauðsráðgjöf Intellecta. Áður hefur hann m.a. starfað sem starfsmannastjóri Eimskips og framkvæmdastjóri hjá KPMG og Norðuráli auk þess að hafa verið ráðgjafi borgaryfirvalda í New York og hjá Sameinuðu þjóðunum. Auk þessara þriggja er Haraldur Jóhannsson á meðal stofnenda ALUCAB og á hann einnig sæti í stjórn félagsins. Hlutafé hins nýja félags er 500 þúsund krónur.

Eins og áður segir er ALUCAB tiltölulega nýstofnað og segir Þórður S. Óskarsson, framkvæmdastjóri, í samtali við Viðskiptablaðið að enn sem komið er sé lítið frá starfseminni að segja. Enn sé verið að vinna að hugmyndavinnu.