Kaup eignarhaldsfélagsins Fons á Skeljungi hefur ekki skaðleg áhrif á samkeppni og telur Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna samrunans, segir í ákvörðun frá stofnuninni.

"Með kaupsamningi [...] keypti Fons Eignarhaldsfélag hf. allt hlutafé í Skeljungi hf. Samkeppniseftirlitið telur að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar vegna umrædds samruna á grundvelli 17. gr. Samkeppnislaga," segir í ákvörðuninni.

Samkeppniseftilitið segir að það sé nær ljóst að engra samlegðaráhrifa gætir við samrunann og að ekkert fyrirtæki í eigu Fons stundar viðskipti með olíuvörur eða veitir sambærilega þjónustu og Skeljungur gerir.

Telur Samkeppniseftirlitið því að samruninn muni ekki hafa skaðleg samkeppnisleg áhrif og að ekki hafi komið fram önnur atriði sem benda til þess að samruninn geti raskað samkeppni.

Eignarhaldsfélagið Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, stundar aðallega fjárfestingar erlendis, einkum í Bretlandi og á Norðulöndum.

Félagið tók meðal annars þátt í kaupunum á Iceland-verslunarkeðjunni og te- og kaffiverslunarkeðjunni Whittard of Chelsea, ásamt því að vera stærsti hluthafinn í sænsku félögunum Ticket Travel Group og FlyMe.

Dótturfélög Fons, sem eru að fullu í eigu félagsins, á Íslandi eru Iceland Express og Pönnu Pizzur ehf. Félagið á einnig stóra eignarhluti í Plastprenti, Inn hf. Högum, og lítinn hlut í fjölmiðla- og fjarskiptasamsteypunni Dagsbrún.