Kaup Føroya Banka á 51% hlut í Verði tryggingum hf. sem tilkynnt voru þann 5. október sl. eru nú gengin formlega í gegn. Það gerðist í kjölfar þess að samþykki fyrir kaupunum fékkst frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi, í Danmörku og Færeyjum og Samkeppniseftirlitinu á Íslandi segir í tilkynningu.

Þar með kemur öflugt erlent fjármálafyrirtæki með virkum hætti inn á íslenskan markað. Føroya Banki, sem lýtur dönskum og færeyskum lögum og eftirliti danska fjármálaeftirlitsins, er einn af tíu stærstu bönkum í Danmörku miðað við markaðsvirði. Heildarfjárfesting Føroya Banka í Verði tryggingum nemur 1.150 milljónum króna og felst hún í kaupum á hlutafé fyrir 550 milljónir króna og 600 milljóna króna hlutafjáraukningu. Staða Varðar trygginga styrkist til muna með kaupunum. Með þeim er eiginfjárstaða félagsins orðin um 1.300 milljónir króna og Vörður tryggingar uppfyllir þar með þær gjaldþolskröfur sem til félagsins eru gerðar.

Í tilkynningu kemur fram að samhliða þessum breytingum hefur ný stjórn Varðar trygginga verið kosin. Janus Petersen, bankastjóri Føroya Banka, og Jean Djurhuus, framkvæmdastjóri Trygd, koma nýir inn í stjórnina en Trygd er færeyskt tryggingafélag í eigu Føroya Banka. Í stjórninni sitja áfram þau Anna Bjarney Sigurðardóttir, Friðrik Jóhannsson, Kjartan Georg Gunnarsson og Ragnar Guðjónsson. Janus Petersen og Jean Djurhuus hafa einnig tekið sæti í stjórn Varðar líftrygginga hf., sem er í eigu Varðar trygginga, Føroya Banka og NBI hf. Auk þeirra situr Anna Bjarney Sigurðardóttir í stórn Varðar líftrygginga.

Hluthafar Varðar trygginga auk Føroya Banka eru SP-Fjármögnun hf., NBI hf. og Byr sparisjóður. Vörður tryggingar hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum. Síðastliðin þrjú ár hefur félagið tvöfaldast að stærð og eykst nú styrkur þess til áframhaldandi sóknar á íslenskum tryggingamarkaði. Viðskiptavinir Varðar eru nú liðlega 28.000 og er markaðshlutdeild félagsins á einstaklingsmarkaði um 13% en heildarhlutdeild í iðgjöldum á vátryggingamarkaði er um 9%. Hjá Verði tryggingum starfa ríflega 50 manns segir í tilkynningu.