Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Landsvirkjunar á hlut RARIK í Héraðsvötnum ehf. Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að það telji að kaupin raski ekki samkeppni samkvæmt þeim viðmiðum sem felast í samkeppnislögum. Héraðsvötn stunda ekki atvinnustarfsemi, eru ekki handhafar virkjunarframkvæmda og stunda ekki orkuvinnslu eða aðra starfsemi. Í ljósi þess  er ekki hægt að sjá að framangreindur samruni komi til með að raska samkeppni eða styrkja markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar umfram það sem fyrir er að mati eftirlitsins. 

Þann 25. september 2012 var undirritaður samningur á milli Landsvirkjunar og RARIK um kaup Landsvirkjunar á 50% eignarhlut RARIK í Héraðsvötnum. Með kaupunum eignast Landsvirkjun helmings hlut í Héraðsvötnum á móti helmings hlut Norðlenskrar orku ehf.

Fyrirhugað söluverð samkvæmt kaupsamningi er bókfærður kostnaður RARIK við undirbúning virkjana í Skagafirði í gegnum Héraðsvötn ásamt verðbótum. Samningurinn kemur ekki til framkvæmda fyrr en fyrirvarar samningsins hafa verið uppfylltir. Í samningnum er m.a. að finna fyrirvara um að hluthafar falli frá forkauparétti.