Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, er kínverskur fjárfestahópur að klára að safna saman fjárfestum, til þess að afgreiða kaup á ítalska knattspyrnuliðinu AC Milan. Liðið er í eigu Finivest SpA, sem er fjárfestingarfélag Silvio Berlusconi.

Fjárfestahópurinn er leiddur af Li Yonghong og samþykkti í síðasta mánuði að kaupa félagið á 740 milljónir evra, sem nemur 830 milljónum Bandaríkjadala.

Hópurinn hefur lýst yfir stórfelldum hugmyndum og vill til að mynda byggja nýjan leikvang. Heimildarmenn Bloomberg fréttaveitunnar, segja fjárfestana einnig vera að kanna hugsanlega skráningu AC Milan á kínverskum mörkuðum.

Fjárfestarnir hafa nú þegar greitt 100 milljónir evra, en þeir þurfa að ljúka við kaupin á árinu. Í samningum þeirra við fyrri fráfarandi eigendur, kemur einnig fram að þeir þurfi að koma 350 milljónum evra inn í fótboltaliðið á næstu þremur árum.

Haixia Capital Management Co., er hluti af umræddum fjárfestahóp. Félagið er ríkisrekið og hefur það vakið umtalsverða athygli í Evrópu. Hópurinn telur að félagið geti orðið virði 2,9 milljarða evra á næstu árum. Kínverjarnir ætla því að veita Real Madrid og Manchester United mikla samkeppni.