Kvika fer fyrir hópi fjárfesta í heilbrigðisþjónustufyrirtæki í Bretlandi. Kvika hefur nýlokið við fjárfestingaverkefni í Bretlandi þar sem það leiddi hóp innlendra og erlendra fjárfesta í kaupum á  meirihluta í breska heilbrigðisþjónstufyrirtækinu Cornerstone Healthcare.

Fyrirtækið starfrækir tvö hjúkrunarheimili í suður Englandi og sérhæfir sig í þjónustu við aðila sem þjást af heilahrörnunarsjúkdómum. Kaupin eru gerð í nánu samstarfi við samstarfsaðila Kviku í Bretlandi og námu þau rúmlega 20 milljónum sterlingspunda, sem eru jafnvirði rúmlega þriggja milljarða króna.

Hafa 150 sjúkrarúm og áforma að kaupa fleiri

Reynslumikið teymi stjórnenda hefur verið ráðið til að stýra daglegum rekstri félagsins segir í tilkynningu fjárfestingarbankans. Cornerstone Healthcare var stofnað árið 1990 af Sargent fjölskyldunni sem hefur rekið heimilin tvö frá upphafi.

Hjúkrunarheimilin South Africa Lodge, sem er staðsett nálægt Portsmouth, og Kitnocks House í Southampton, hafa rúmlega 150 sjúkrarúm til ráðstöfunar. Fjölskyldan hefur nú selt heimilin til fjárfestahópsins sem áformar að stækka félagið með kaupum á frekari hjúkrunarheimilum á komandi árum.

Gunnar Sigurðsson
Gunnar Sigurðsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi, segir fjárfestinguna vera í beinu samræmi við stefnu Kviku um að finna og bjóða viðskiptavinum Kviku uppá áhugaverða fjárfestingakosti í Bretlandi.

„Cornerstone er vel rekið félag og við sjáum það sem góða undirstöðu fyrir þá viðskiptaáætlun sem fjárfestarnir hafa útbúið í samvinnu við sterkt teymi stjórnenda sem nú hefur tekið við rekstri félagsins,“ segir Gunnar.

„Í Bretlandi er mikill skortur á framboði á sérhæfðri þjónustu fyrir fólk sem þjáist af heilahrörnunarsjúkdómum miðað við þá eftirspurn sem til staðar er. Þannig er mikið tækifæri fyrir okkar hóp fjárfesta að auka þjónustuna sem félagið veitir með frekari fjárfestingu í nýjum hjúkrunarrýmum.“