Kaupréttir og hlutafjáreign fjögurra æðstu stjórnenda AMR, móðurfélags bandaríska flugfélagsins American Airline, urðu að engu við gjaldþrot fyrirtækisins. Peningarnir sem gufðu upp við brotlendinguna nema 17,5 milljónum dala, jafnvirði rúmra tveggja milljarða íslenskra króna, og hafa staðið stjórnendunum til boða síðastliðin þrjú ár.

Á meðal fjórmenninganna er Tom Horton, sem tók við forstjórastólnum þegar fyrirtækið óskaði eftir greiðslustöðvun í samræmi við bandarísk gjaldþrotalög.

Fram kemur á netmiðlinum Sky Talk að fjórmenningarnir hafi fengið rétt til kaupa á hlutabréfum flugrekstrarfélagsins í skiptum fyrir launalækkun sem þeir tóku á sig til að forða félaginu frá gjaldþroti árið 2003. Þeir fengu sömuleiðis vilyrði um árangurstengdar bónusgreiðslur. Þau markmið sem bónusgreiðslurnar kváðu á um náðust ekki að fullu leyti og fengu þeir því helmingi lægri greiðslur en þær áttu upphaflega að vera, að því er fram kemur í Sky Talk.

Fyrirtækið fór í greiðslustöðvun 29. nóvember í fyrra og voru hlutabréf fyrirtækin tekin úr viðskiptum í kauphöllinni í New York í síðasta mánuði.