Kauphöll Íslands felldi út tvö utanþingsviðskipti með bréf Landsbankans [ LAIS ] í dag, sem námu saman tæplega níu milljörðum króna á genginu 22,8, sem rímar við markaðsgengið.  Umfang viðskiptanna telur um 4% af hlutafé Landsbankans.

Baldur Thorlacius, sérfræðingur hjá Kauphöll Íslands, segist ekki geta upplýst um hvað misfórst.  „Þetta voru einfaldlega viðskipti sem átti ekki að tilkynna um,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Baldur segir  það geti verið matsatriði hvort viðskipti séu tilkynningarskyld eða ekki. Þetta geti komið fyrir og þá sé unnið úr því og vandamálið leyst.

Ekki virðist sem svo að fjárfestar hafi stokkið á vagninn, þegar þeir sáu þessi miklu viðskipti og keypt í Landsbankanum, því veltan með bréf bankans nemur 67 milljónum skömmu fyrir lok hlutabréfamarkaðar. Það gerir bankann fjórða veltumesta félag í Kauphöllinni það sem af er degi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Tveir hluthafar Landsbankans eiga stöður sem eru stærri en 4%; Landsbankinn Luxembourg er með um 8% hlut og Samson eignarhaldsfélag á um 42% hlut. Ellefu hluthafar eiga hlut á bilinu 2% til 3,1%, samkvæmt upplýsingum úr hluthafaskrá.