Kauphöll Íslands mun ekki hefja samrunaviðræður við norrænu kauphöllina OMX, segir í tilkynningu.

"Kauphöllin telur að eins og staðan er nú séu sterkari rök fyrir því að halda áfram að starfa eftir núverandi stefnu," segir í tilkynningu frá Kauphöll Íslands.

OMX hefur gefið til kynna að félagið hafi áhuga á sumruna og undanfarið hefur stjórn Kauphallarinnar íhugað gaumgæfilega líkleg áhrif af sameiningu við OMX.

"Eftir að hafa vandlega metið kosti og galla slíkrar sameiningar, komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að sterkari rök væru fyrir því að halda áfram að reka Kauphöllina samkvæmt núverandi stefnu," segir í tilkynningunni.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar sagði að matsferlið hafi verið mjög ítarlegt og að meðal annars hafi verið leitað til óháðra fagaðila, ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group.

Hann sagði að aðstæður fyrir Kauphöllina til vaxtar væru til staðar og lagði áherslu á að Kauphöllin muni halda áfram að vinna að sameiginlegum verkefnum NOREX kauphallanna. Ef aðstæður breytist, muni afstaða til sameiningarmála verða endurskoðuð.

Kauphöllin í Kaupmannahöfn rann inn í OMX í nóvember í fyrra en áður gerðust kauphallirnar í Helsinki og Stokkhólmi meðlimir. Kauphallir Eystrasaltsríkjanna þriggja -- Eistlands, Lettlands og Litháen -- eru einnig hluti af OMX. Kauphöll Íslands og norska kauphöllin standa einar fyrir utan samstæðuna.