*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 25. maí 2020 11:22

Sameinast Nasdaq við Eystrasaltið

Nasdaq verðbréfamiðstöð sinnir nú markaðinum á Íslandi og Eystrasaltslöndunum eftir sameingu við evrópskt systurfélag.

Ritstjórn
Magnús Kristinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq CSD á Íslandi
Haraldur Guðjónsson

Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. hefur í dag formlega sameinast Nasdaq CSD SE. Hið sameinaða félag, Nasdaq CSD, verður með starfsemi í Lettlandi, Eistlandi, Litháen og á Íslandi. Viðskiptablaðið sagði frá áætlunum um sameininguna við sams konar verðbréfamiðstöð í Eystrasaltslöndunum sumarið 2018.

Í kjölfar sameiningarinnar verður íslenska starfsemin í stakk búin til að nýta að fullu þá möguleika og tengingar sem verðbréfamiðstöðvakerfi Nasdaq CSD hefur upp á að bjóða og skapa þannig ný tækifæri fyrir innlenda sem erlenda viðskiptavini, segir í fréttatilkynningu í dag. Áætlað er að tæknilegum hluta sameiningarinnar, innleiðingu á nýju verðbréfamiðstöðvarkerfi, muni ljúka þann 15. júní næstkomandi.

„Sameining okkar við Nasdaq CSD og innleiðing á alþjóðlegu verðbréfauppgjörskerfi, marka afar mikilvæg tímamót fyrir viðskiptavini okkar hér á landi,“ er haft eftir Magnúsi Kristni Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Nasdaq CSD á Íslandi. 

„Þetta er bæði stærsta innviðabreyting sem og tæknilegu framfarir sem hafa átt sér stað á íslenska verðbréfamarkaðnum í 20 ár og mun gera okkur kleift að taka þátt í nýsköpun og þróun í þessari grein sem mun skila sér til viðskiptavina okkar.“

Nasdaq CSD varð árið 2017 fyrsta verðbréfamiðstöðin í Evrópu til að öðlast starfsleyfi á grundvelli nýrrar evrópskrar reglugerðar um verðbréfamiðstöðvar (e. Central Securities Depository Regulation - CSDR), en hún fékk nýlega leyfi til að starfa hér á landi í samræmi við hana.

Hefur Nasdaq CSD samþætt starfsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar á Íslandi við Nasdaq CSD til samræmis við kröfur CSDR um stjórnarhætti og rekstur, með það fyrir augum að tryggja öruggari og skilvirkari uppgjörsþjónustu á íslenska verðbréfamarkaðnum í samræmi við alþjóðlega staðla.

„Alþjóðlegt uppgjörsumhverfi verðbréfa tekur örum breytingum og því verðum við að tryggja að viðskiptavinir og fjárfestar á mörkuðum okkar hafi ávallt aðgang að bestu fáanlegu vörum og þjónustu á hverjum tíma,“ segir Indars Ascuks, forstjóri Nasdaq CSD. 

„Sameining gerir okkur betur í stakk búin til að bjóða upp á úrvalsþjónustu í samræmi við alþjóðlegar kröfur og styðja við áframhaldandi framþróun íslensks verðbréfamarkaðar, meðal annars með því að skapa grundvöll fyrir frekari þjónustu gagnvart alþjóðlegum fjárfestum.“

Indars Ascuks, forstjóri Nasdaq CSD mun halda áfram sem forstjóri sameinaðs félags eftir sameininguna. Magnús Kristinn Ásgeirsson situr í framkvæmdastjórn Nasdaq CSD og mun jafnframt leiða starfsemi Nasdaq CSD á Íslandi sem og viðskiptaþróun hjá Nasdaq CSD samstæðunni.