Kauphöll Íslands hefur ákveðið að áminna Atorku Group hf. opinberlega og beita félagið févíti að fjárhæð kr. 2.500.000 fyrir brot á reglum Kauphallarinnar, segir í tilkynningu. Kauphöllin álitur að Atorka Group hf. hafi gerst brotleg við ákvæði 2.1.6 og 2.3.7 í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur verðbréfa. Málavextir eru þeir að 30. ágúst sl. sendi Atorka Group hf. (Atorka) Kauphöll Íslands fréttatilkynningu vegna birtingar á sex mánaða uppgjöri félagsins.

Fyrirsögn tilkynningarinnar var: ,,Hagnaður Atorku Group eftir skatta á fyrri helmingi ársins var tæplega 4,9 milljarðar króna". Við lestur uppgjörsins kom í ljós að hagnaður samstæðunnar var 187 milljónir kr. Þær lykiltölur sem fram komu í fréttatilkynningunni voru aðeins lykiltölur móðurfélagsins. Engar lykiltölur voru um samstæðuna.

Þar sem fyrirsögn fréttatilkynningarinnar og meginmál fjölluðu um uppgjör móðurfélagsins en ekki samstæðuna, hafði Kauphöllin daginn eftir samband við Atorku og óskaði eftir leiðréttingu á fréttatilkynningunni. 4. september var sent bréf til félagsins og þess krafist að fréttatilkynningin yrði leiðrétt og einnig var óskað eftir skýringum á því af hverju fréttatilkynningin frá 30. ágúst hefði ekki haft að geyma umfjöllun um samstæðuna eins og reglur Kauphallarinnar gera ráð fyrir sbr. ákvæði 2.1.6 og 2.3.7 og ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 433/1999 um upplýsingaskyldu útgefanda, kauphallaraðila og eiganda verðbréfa sem eru skráð kauphöll. Þann 13. september óskaði félagið eftir fundi með Kauphöllinni. Á fundinum fór Kauphöllin yfir hvaða atriði ættu að koma fram í fréttatilkynningunni vegna uppgjörsins.

Nýjar tilkynningar bárust Kauphöllinni 14., 19. og 21. september en Kauphöllin taldi þær tilkynningar ófullnægjandi þar sem umfjöllun um móðurfélagið var enn þungamiðjan í tilkynningunum. Kauphöllin gaf Atorku þó kost á því að birta tilkynningarnar frá 19. og 21. september þrátt fyrir að Kauphöllin teldi tilkynningarnar ekki fullnægjandi. Félagið staðfesti ekki að birtingar væri óskað og voru tilkynningarnar því ekki birtar. Þann 26. september birtist leiðrétt fréttatilkynning frá félaginu.

Kauphöllin vakti athygli félagsins á því að umrædd fréttatilkynning væri ekki fullnægjandi og yrði hún birt í fréttakerfinu þá fælist ekki í því viðurkenning af hálfu Kauphallarinnar á að málinu væri lokið. Fyrirsögn fréttatilkynningarinnar var ,,Hagnaður Atorku Group, móðurfélags, eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2006 var tæplega 4,9 milljarðar króna". Meginefni fréttatilkynningarinnar var enn móðurfélagið, m. a. snerust upphafsmálsgreinar hennar um það, en bætt hafði verið við lykiltölum um samstæðuna fyrir fyrsta og annan ársfjórðung 2006. Skýringar útgefanda bárust 25. september.

Atorka gerði samning við Kauphöll Íslands um skráningu hlutabréfa félagsins í Kauphöllinni. Félagið gekkst með því undir reglur Kauphallarinnar um upplýsingagjöf. Fréttatilkynning Atorku vegna uppgjörsins átti að endurspegla uppgjör samstæðunnar þar sem Atorka er samstæða, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 433/1999. Útgefanda er óheimilt að haga fréttatilkynningunni með þeim hætti að veita nær eingöngu upplýsingar um niðurstöðu reikningsskila móðurfélagsins. Upplýsingar um uppgjör móðurfélagsins eru viðbótarupplýsingar og geta fylgt með fréttatilkynningu sem ítarefni, en ekki verið þungamiðja hennar. Atorka getur ekki vikið sér undan reglunum með þeim rökum að önnur framsetning reikninga en sú sem kveðið er á um í reglunum gefi gleggri mynd af rekstri félagsins.

Sú framsetning félagsins að láta upplýsingar um uppgjör móðurfélagsins í fyrirsögn og gera það að meginefni tilkynningarinnar er til þess fallin að villa um fyrir fjárfestum í ljósi skyldu félagsins að miða tilkynninguna við samstæðuuppgjör. Telja verður að félagið hafi ekki gefið skýra mynd af uppgjöri félagsins með framsetningunni, sbr. ákvæði 2.1.6 í reglum Kauphallarinnar.

Ákvörðun um beitingu opinberrar áminningar og févítis er tekin á grundvelli samnings Atorku Group hf. við Kauphöllina vegna skráningar hlutabréfa félagins í Kauphöll Íslands, sbr. ákvæði 7.3 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands en þar segir m.a. að vegna brota útgefanda á reglum Kauphallarinnar sé henni heimilt að birta opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt mál og beita viðurlögum í formi févítis