Íslenska Kauphöllin vísaði 22 málum til Fjármálaeftirlitsins (FME) til frekari skoðunar á síðasta ári. Alls afgreiddi hún 58 eftirlitsmál á árinu. Vinnslu þriggja mála var enn ólokið um síðustu áramót. Þetta kemur fram í tilkynningu frá NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku Kauphöllinni, um yfirlit eftirlitsmála.

Af málunum 58 afgreiddi Kauphöllin 42 mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði (upplýsingaskyldueftirlit). Málin voru afgreidd með mismunandi hætti; með athugasemdum (6), óopinberri áminningu (13), opinberri áminningu (5), en þar af var tveimur málum lokið með févíti og tvö voru einnig áframsend til FME. Tólf önnur mál voru áframsend til FME en því til viðbótar er FME upplýst um öll mál sem Kauphöllin afgreiðir með áminningu. Sex mál voru felld niður.

Alls voru 16 mál sem lúta að viðskiptum með verðbréf (viðskiptaeftirlit) afgreidd. Af þeim voru sex mál afgreidd með athugasemdum og átta mál áframsend til FME til frekari skoðunar. Tvö mál voru felld niður.