Nú er komið í ljós að íslenska ríkið náði ekki að nýta sér forkaupsrétt sinn á jörðinni Fell sem á helminginn af Jökulsárlóni.

Í kjölfar þess að Sýslumaðurinn á Suðurlandi hafi að því er virðist gefið fjármálaráðuneytinu rangar upplýsingar um tímamörk á forkaupsréttarfresti ríkisins til að ganga inn í kaupin rann hann út áður en ráðuneytið nýtti frestinn.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag , en þar segir að fresturinn hafi runnið út 3. janúar en ríkið hafi ekki ákveðið að nýta hann fyrr en 9. janúar, sex dögum of seint.

Jörðin var seld í nauðungarsölu að beiðni eigenda þann 4. nóvember síðastliðinn og var félagið Fögrusalir ehf. kaupandinn með tilboði sem hljóðaði upp á 1.520 milljónir króna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá gat ríkið gengið inn í kaupin á grundvelli náttúruminjalaga þar sem jörðin inniheldur náttúruminjar, og var ætlunin að færa alla jörðina undir Vatnajökulsþjóðgarð.

„Það er alveg ljóst að umræddur frestur hins opinbera til að ganga inn í kauptilboð Fögrusala ehf. var runninn út þegar fjármálaráðherra ákvað að skerast í leikinn,“ segir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Fögrusala ehf. í Fréttablaðinu.