Greiningardeild Kaupþings banka hefur hækkað vermat sitt á Actavis Group í 73,6 krónur á hlut úr 69 krónum á hlut og tólf mánaða markgengi hækkar í 82,0 krónur á hlut úr 78. Mælir hún með kaupum í félaginu. Er verðmatið uppfært í kjölfar tveggja nýlegra fyrirtækjakaupa.

?Við teljum yfirtökur Actavis á bæði ZiO Zdorovje og Abrika Pharmaceuticals jákvæðar fyrir félagið. Með yfirtökunni á ZiO fær Actavis aðgang að þeim hluta rússneska lyfjamarkaðarins sem greitt er fyrir af ríkinu og þeir njóta sem ekki hefðu annars fengið lyf.

Þessi markaður er um einn milljarður evra og augljóst að þarna er um töluverð sóknarfæri að ræða. Þá fær Actavis einnig aðgang að nýrri verksmiðju ZiO sem hefur um tvo milljarða taflna framleiðslugetu og er samþykkt fyrir framleiðslu lyfja fyrir Evrópumarkað,? segir greiningardeildin.

Yfirtakan á Abrika Pharmaceuticals í Bandaríkjunum kom greiningardeild nokkuð á óvart. ?Við teljum þó að hún hafi verið sterkur leikur hjá Actavis, en með yfirtökunni styrkir Actavis stöðu sína töluvert á sviði forðalyfja.

Þau lyf eru flóknari í framleiðslu heldur en hefðbundin samheitalyf og mun færri samkeppnisaðilar eru á þeim markaði, sem leiðir til hærri framlegaðar. Abrika er enn sem komið er aðeins með eitt lyf á markaði en það mun væntanlega breytast strax á næsta ári þegar stefnt er að markaðssetningu þriggja nýrra lyfja,? segir greiningardeildin.