Kauþing banki hefur skipað fjárfestingabankana Credit Suisse First Boston (CSFB) og Deutsche Bank til þess að stjórna væntanlegu skuldabréfaútboði bankans. Þetta staðsfesti talsmaður bankans, Flemming Ellegaard, í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

Ellegaard vildi ekki gefa upp upphæð útboðsins eða tjá sig um vaxtakjör. Hann sagði bankann ekki vera að safna fé til þess að fjármagna tilboð sitt til kaupa á breska bankanum Singer & Friedlander (S&F).

Kaupþingi banka hafa borist samþykki við kauptilboði upp á 96,6 milljón hluti eða því sem samsvarar 55,8% af útgefnu hlutafé í S&F. Kaupþing banki á þegar 19,5% hlut í breska bankanum, eða um 33,7 milljónir hluta. Virði tilboðsins er um 547 milljónir punda, eða um 65 milljarðar íslenskra króna. Segir í tilkynningu Kauphallarinnar frá því á miðvikudag að tilboðið verði framlengt til 14. júní. Fyrsti lokadagur rann út þann 1. júní.

Skuldabréfaútboð Kauþings banka er gert með þeim fyrirvara að markaðsaðstæður séu hagstæðar, segir talsmaður bankans. Lækkun lánshæfismats bandaríska bílarisans General Motors (GM) varð til þess að í stoðum skuldabréfamarkaða heimsins hrikti og segja sérfræðingar að fjárfestar séu varir um sig. Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's hefur lækkað mat sitt á GM í BB úr BBB og hækkar það vaxtagreiðslur bílarisans og lækkar verðgildi skuldabréfa fyrirtækisins.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.