Kaupþing banki íhugar nú að lögsækja danska götublaðið Ekstra-blaðið fyrir skrif sín um bankann, en í greinum blaðsins var bankinn meðal annars bendlaður við skattamisferli. Greint er frá hugsanlegri lögsókn bankans á danska fréttavefnum epn.dk.

Þar kemur fram að mögulegt sé að sækja málið í Bretlandi, en greinar Ekstra-blaðsins hafa verið þýddar á ensku og birtar á vefsíðu blaðsins.

Talsmaður bankans í Danmörku segir að þar sem greinarnar hafi verið birtar á ensku og að hægt sé að nálgast þær frá Englandi, en bankinn starfar á enska markaðnum, sé mögulegt að stefna Ekstra-blaðinu í Englandi. Ensk meiðyrðalöggjöf er talin vera harðari en sú danska.