Kaupþing banki mun leggja 26,2 milljarða króna (200 milljónir punda) í nýjan sjóð, Kaupthing Capital Partners II, sem fjárfesta mun í óskráðum félögum og er fyrsti slíki sjóðurinn sem Kaupþing stofnar ásamt utanaðkomandi fjárfestum. Jafnframt hefur bankinn safnað 39,3 milljörðum króna (300 milljónum punda) frá utanaðkomandi fjárfestum. Kaupþing mun því eiga 40% í sjóðnum en stærð hans verður alls 65,5 milljarðar króna (500 milljónir punda), segir í tilkynningu frá kauphöllinni.

Hinir utanaðkomandi fjárfestar eru einkum fjárfestingarfélög, lífeyrissjóðir og efnaðir einstaklingar. Kaupþing hugðist upphaflega safna á bilinu 13 til 26 milljörðum króna (100 til 200 milljónum punda) frá fjárfestum en vegna umframeftirspurnar var sú fjárhæð hækkuð í 39 milljarða króna (300 milljónir punda). Stefnt er að því að loka sjóðnum á næstu vikum.

Fjárfestingar Kaupþings í óskráðum félögum munu framvegis fara inn í sjóðinn en honum verður stýrt af Kaupthing Principal Investments, sem er það teymi bankans sem sérhæfir sig í fjárfestingum í óskráðum félögum. Þær eignir bankans í óskráðum félögum sem bankinn átti um síðastliðin áramót, verða ekki færðar inn í sjóðinn.

Stofnun sjóðsins mun auka gagnsæi og gera stefnu bankans varðandi fjárfestingar í óskráðum félögum skýrari og fastmótaðri. Sjóðurinn mun auðvelda Kaupþingi að taka þátt í fleiri og stærri verkefnum en áður, auk þess sem búast má við því tilkoma sjóðsins skapi aukin verkefni hjá öðrum tekjusviðum bankans.