Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, segir bankann leita eftir stórum yfirtökum og að bankinn hafi áhuga á auka starfsemin í Noregi og Finnlandi.

"Vegna stærðar bankans höfum við frekar áhuga á stærri yfirtökum frekar en smærri," sagði Hreiðar Már. Hann segir Þýskaland, Eystrasaltslöndin og Benelux-löndin henta vel til stækkunar á bankanum.

Hins vegar sagði Hreiðar Már að Kaupþing myndi fara varlega í að fjárfesta í Eystrarsaltslöndunum. "Við skoðuðum Eystrarsaltslöndin árin 1999 og 2000, en töldum of áhættusamt að fjárfesta þar þá. Við höfum áhyggjur af því að þar séu að verða of margir bankar og gætum þess vegna varúðar," segir Hreiðar Már.

Kaupþing getur fjárfest um 500 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 37 milljörðum, í yfirtökur. Hreiðar sagði bankann einnig geta farið i hlutafjárútboð til þess safna meira fjármagni. Hagnaður bankans þrefaldaðist á árinu sem leið og nam tæmum 50 milljörðum.

Kaupþing banki hefur verið ráðinn til að skrá tvö fyrirtæki á hlutabréfamarkaði í ár, sagði Hreiðar Már Siguðsson, forstjóri bankans, á blaðamannafundi fyrr í dag.

"Við erum með tvö verkefni um að fleyta tveimur félögum á hlutabréfamarkað á þessu ári," sagði Hreiðar Már. Ekki hefur komið fram hvar né hvenær skráningarnar munu eiga sér stað.

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, greindi frá því nýlega að félagið er að vinna að skráningu félaga úr eignasafnii sínu. Baugur og Kaupþing eiga hlut í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni Shoe Studio Group.

Don McCarthy, forstjóri Shoe Studio Group, sagði í samtali við breska fjölmiðla að til stæði að skrá félagið á hlutabréfamarkað á Íslandi í kjölfar vel heppnaðrar skráningar Mosaic Fashions í Kauphöll Íslands.