Kaupþing banki hefur á ný minnkað hlut sinn í finnska kæli- og frystiþjónustufyrirtækinu Huurre Group. Að sögn Helga Bergs, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Kaupþings, minnkaði bankinn hlut sinn niður í 50% aftur í kjölfar þess að nýtt stjórnendateymi kom inn í Huurre. Nýir stjórnendur félagsins keyptu 25% hlutafjár af Kaupþing sem hafði aukið eignarhlut sinn upp í 75% á síðasta ári.

Að sögn Helga reyndist nauðsynlegt að skipta út stjórnendateymi félagsins og var meðal annars nýr forstjóri ráðinn að félaginu í ágúst í fyrra. Kaupþing keypti allt hlutafé í Huurre með stjórnendum félagsins í maí 2003. Félagið var þá leiðandi fyrirtæki í Evrópu í kæli- og frystiþjónustu. Félagið velti þá um 150 milljónum evra en velta félagsins hefur verið tvöfölduð síðan þá. Árið 2004 var fyrirtæki keypt í Bretlandi en helstu markaðssvæði félagsins eru á Norðurlöndunum, Norður-Evrópu, Bretlandi og einnig er nokkur sala til Rússlands.

Helgi vildi ekkert tjá sig um hve lengi Kaupþing hygðist eiga hlut sinn í Huurre en ljóst er að félagið verður þar inni heldur lengur en ætlað var í upphafi.

Bridgepoint Capital keypti Huurre Group árið 1998 og vann við að efla Huurre-samstæðuna bæði með innri og ytri vexti, til dæmis með kaupum á Prepan A/S í Noregi árið 1999 og Svensk Butiksservice árið 2000, sem er viðhalds- og kæliþjónustudeild sænsku verslunarkeðjunnar ICA. Þegar Kaupþing kom að félaginu var ætlunin að leggja áherslu á að auka þátt Huurre Group í samþættingu evrópsks kæli- og frystiiðnaðar og auka innri vöxt félagsins með því að efla þjónustuþátt Huurre Group.