Kaupþing hefur ákveðið að opna útibú við Persaflóann á næstu sex mánuðum. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að bankinn hefði verið að skoða opnun útibús á þessu svæði um nokkurn tíma og hefði nýverið ráðið nokkra starfsmenn með það í huga. "Í gegnum starfsemi okkar í Bretlandi höfum við kynnst mikið af viðskiptavinum frá þessum heimshluta og það er ljóst að þetta er mikið vaxtasvæði. Við höfum verið lengi verið með fólk sem er vel tengt þarna niður eftir."

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Kaupþing gengið frá ráðningu forstöðumanns til að sinna útibúinu við Persaflóa og mun hann vera vel þekktur í bankaheiminum í Bretlandi. Sigurður vildi ekki tjá sig um það.

Persaflóasvæðið hefur verið að auka mikilvægi sitt í fjármálaheiminum og þá sérstaklega Dubai. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður útibú Kaupþings ekki opnað þar heldur í einhverju nágranalandanna.