*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 24. júní 2021 16:20

Kaupir 367 sendastaði á Íslandi

Colony Capital, sem er að ganga frá kaupum á óvirkum fjarskiptainnviðum Sýn og Nova, eignaðist gagnaver á Blönduósi og Fitjum í fyrra.

Thomas J. Barrack Jr., stofnandi Colony Capital
epa

Samkeppniseftirlitinu hefur borist tilkynning um sölu Sýnar og Nova á öllu hlutafé nýrra eignarhaldsfélaga, S8108 ehf. og Nova Sendastaðir ehf., sem halda utan um eignarhald á öllum óvirkum fjarskiptainnviðum þeirra. Umrædd félög eru eigendur samtals 367 sendastaða sem áður voru í eigu Sýnar og Nova, eða um 200 staðir í eigu þess fyrrnefnda og 167 staðir í eigu þess síðarnefnda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef eftirlitsins sem óskar nú eftir umsögnum vegna kaupanna.

Kaupandinn er ITP ehf. sem stofnað var sérstaklega vegna kaupanna og heyrir undir sjóði í stýringu hjá Digital Colony. Sjóðurinn sérhæfir sig í stýringu fjárfestinga á ýmsum stafrænum innviðum á borð við gagnaverum, fjarskiptamöstrum, ljósleiðarakerfum og öðrum sambærilegum eignum. Komi samruninn til framkvæmdar mun Sýn og Nova kaupa þjónustu af ITP sem lýtur að nýtingu hinna óvirku innviða.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í febrúar, er Digital Colony hluti af samstæðu Colony Capital sem breytti að vísu um nafn fyrr í mánuðinum og heitir nú DigitalBridge. Colony Capital var stofnað af bandaríska auðmanninum Thomas J. Barrack Jr, nánum vini og stuðningsmanni Donald Trump. Barrack hefur vakið athygli fyrir ýmiskonar fjárfestingar í gegnum tíðina, m.a. að taka yfir eignarhald á Neverland-búgarði Michaels Jackson árið 2008 og kaup Colony Capital á franska knattspyrnuliðinu PSG sem seldi það síðar til katarsks ríkisfjárfestingafélags.

Í samrunaskránni kemur fram að Colony Capital, í gegnum Vantage Europe, eignaðist fyrirtækið Etix Everywhere Borealis á síðasta ári. Etix starfrækir gagnaver á Blönduósi og Fitjum. Heildarvelta Etix samstæðunnar var samtals 3,4 milljarðar króna árið 2019 og rúmur milljarður árið 2018.

Colony Capital fer með yfirráð yfir einu fyrirtæki sem tengist óvirkum fjarskiptainnviðum innan EES svæðisins. Það er finnska turnfélagið Digita, sem er með 630 útsendinga- og fjarskiptaturna og dekkar nær alla íbúa Finnlands. Colony fer með yfirráð yfir á þremur öðrum félögum á EES svæðinu, á aðskildum mörkuðum, en það eru Aptum Technologies, DataBank og Zayo.

6,5 milljarða söluhagnaður Sýnar

Sýn sendi frá sér tilkynningu í lok mars um að félagið hafi undirritað samninga við erlenda fjárfesta um sölu og endurleigu á óvirkum farsímainnviðum. Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði við síðasta uppgjör að væntur söluhagnaður Sýnar af sölunni yrði um 6,5 milljarðar króna. „Við náðum í samningaviðræðum að hækka söluandvirðið upp í 7,1 milljarð,“ sagði Heiðar.

Sjá einnig: Sýn eygir um 14 milljarða innviðasölu

Á fjárfestafundi félagsins sagði hann jafnframt að Sýn hafi undirritað viljayfirlýsingar og skipst á trúnaðarupplýsingum við þrjá mismunandi aðila vegna sölu á burðarneti í eigu félagsins. Heiðar áætlar salan af burðarnetinu geti hæglega numið álíka fjárhæð og fyrri salan á óvirku fjarskiptainnviðunum.